Tuesday, August 12, 2008

Opnar prufur

Veljið annan hvorn textann og sjáumst svo í prufu.
Sendið póst á othello.parkour@gmail.com til að fá nánari upplýsingar.

Bestu kveðjur,
Láki Leikhús.

Desdemóna:
Ó, Jagó,
hvernig get ég nú unnið vin minn aftur?
Farðu til hans; ég sver við ljósið sjálft,
að mér er hulið, hvernig ég hef misst hann.
Hér krýp ég; hafi sál mín nokkru sinni
svívirt hans ást í hugsun eða verki,
eða mín sjón, mín heyrn, já hvaða skyn
sem væri, gert sér glatt við aðra menn,
eða ég elska´ hann ekki af heilum hug
nú, einsog fyrr, og einsog ég mun gera
jafnt þótt hann ræki mig á vonarvöl,
þá hverfi mér öll huggun. Kali er skæður,
kali hans getur lagt mitt líf í auðn,
en aldrei fölskvað ást mína. Að taka
mér orðið hóra í munn, það blöskrar mér;
að fremja það sem þar er nefnt, það gæti
ég aldrei fyrir alla heimsins dýrð.
.....
Barbara hét ein þerna móður minnar;
hún lagði ást á mann, sem mjög var brigðull
og sveik hana. Hún söng oft gamalt stef
um pílviðinn; þar sá hún örlög sín;
hún söng það, er hún dó. Og nú í kvöld
hverfur mér ekki úr huga þetta ljóð;
mér liggur við að halla höfði og syngja
sem veslings Barbara. Viltu hraða þér.


Emilía:
Jú, tylftir; og í tilbót nógu margar
að uppfylla þann heim, sem kom í hlut.
Ég held að það sé eiginmannsins sök,
ef konan hrasar. Segjum að þeir svíki,
og sói voru djásni í önnur skaut,
eða þeir fyllast fáránlegum grun
og loka oss inni, eða slá oss jafnvel,
ellegar skammta oss smánar viðurværi,
þá skortir oss ei skap; þó mildar séum,
kunnum vér samt til hefnda. Hollt þeir viti
að einnig konur kenna til; þær sjá,
og þefa, vita skil á sætu og súru,
sem bændur þeirra. Hvað mun hvetja þá
að skipta á oss og öðrum? Gamansemi?
Ég býst við því. Spratt hún af hjartans rótum?
Það held ég. Er þá breyskleik um að kenna?
Já, reyndar. En er ekki hjarta´ í oss
einsog í þeim? með gamansemi og breyskleik?
Þeir ættu að gleðja oss vel; í vorri synd
er vert þeir skoði sína eigin mynd.

No comments: